Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Umbrot

Nú er farið að fjúka í flest skjól, Saddam hengdur og Hallbjörn hættur kántrýútsendingum á Skagaströnd. Nú fara flest vígi að falla fyrir skrýtna meðbræður oss. Hvert er veröldin að fara?

En jæja, ég er ekki dauður enn svo það er ennþá einhver von.

Varðandi þetta með aftöku Saddam, þá er ég kannski ekki alveg hlyntur svona aðgerðum, þótt hann hafi trúlega verið hinn mesti hrotti og illgjörðarmaður. Hann á að bera ábyrgð á allavega tæplega 200 manns, sem er í reynd afar fáar hræður með tilliti til allra hinna þjóðanna.

Eitt gott tilsvar frá einhverjum vígahópi á þá leið að Saddam hafi sannanlega borið ábyrgð á dauða 148 manns í einni borg í Írak, en fyrr hefði mátt hengja Bush, þar sem hann ber sannanlega ábyrgð á dauða 600 þúsunda óbreyttra borgara í landinu frá því stríðið hófst.

Alveg er það merkilegur fjandi, nú þegar Saddam er allur, að velflestar þjóðir sem studdu olíurugl Bandaríkjanna þarna í Írak, eru að reyna að þvo hendur sínar með því að fordæma aftökuna. Ég er ekki að sjá að hinar "Vestrænu" þjóðir séu hótinu skárri en ofsatrúar múslimar þarna eystra. Allt er þetta vegna olíugræðgi Bandaríkjanna, þetta á sér enga skiljanlega ástæðu og ekkert getur réttlætt svona morð, sem eru sannanlega framin að yfirlögðu ráði hjá Bushmönnum. Hvenær ætlum við að opna augun almennilega?

Áramót, eða hvað?

Nú gengur sá tími í hönd þegar allir ætla nú að gera eitthvað, fyrir sjálfan sig eða aðra, kannski gera öðrum eitthvað, gera eitthvað af sér, nú eða kannski gera ekki neitt. Ég tilheyri síðastnefnda hópnum. Mér hafa alla tíð þótt þessi áramóta-eitthvað-heit vera eitt það fáránlegasta sem ég hef heyrt af. Fólk veit upp á sig sakirnar með ólífið-saurlífið og vill í einhverju skúmaskoti hugans breyta því, en í raun og veru vill fólk frekar bera sig öðruvísi að við saurlífið, finnst núverandi aðferð ekki virka sem skyldi. 

Við eigum svo assgoti erfitt með að koma okkur uppúr drullufarinu sem við höfum verið að hjakka í seinustu árin, finnst það í raun og veru barasta ágætt, en okkur vantar tilbreytingu. Sú tilbreyting gæti verið að spreða 50kjelli í einhverja líkamsræktarstöðina, svona bara til að geta sagt við kunningjana að maður eigi kort. Málið er að afar fáir eru að gera þetta af einhverri alvöru og þeirri ákveðni og aga sem til þarf. Ég þarf ekki á neinu sérstöku átaki að halda líkamlega, frekar andlegu átaki. Ég er alveg í BMI formúlunni, neðarlega þó, en er ekki í áhættu með vannæringu. 

Ég gæti vel hugsað mér að fara að stunda innhverfa íhugun, finna eitthvað Jing og Jang eða hvað það nú heitir. Kannski einhverfa útvíkkun, er það ekki til annars? Allavega koma jafnvægi á orkubúskapinn, maður er yfirleitt að keyra á varatankinum, eða lyktinni einni saman. Ef maður hefði fullan tank einhvern tímann, væri ég sjálfsagt sjálftætt starfandi námuiðnjöfur á Tunglinu á þessari stundu. Eyddi frístundum í það að grýta smásteinu í átt til jarðar með einlægri ósk um að hitta einhvern bjánann í hvirfilinn. 

Nevertheless, (aldrei nema lessan), þá er ég í fúlustu alvöru að velta því fyrir mér að fara hressilega yfir á heimildinni við sprengiefnakaup á morgun, eitt af aðaláhugamálunum, í það minnsta á þessum tíma. Það blundar í okkur öllum skemmdarvargatilhneigingar, öll erum við perrar inn við beinið og sjálfsagt finnast varla í byggðu bóli jafn miklir rasistar og hérna á þessu guðsvolaða skeri.

Njótum eyðileggingarinnar, kaupum mikið af raketturusli, eyðum hýrunni í líkamsræktarstöðvar og vorkennum okkur svo aumingjaskapinn og bryðjum Ritalín og Valíum með smá dassi af Spítti.


Ef vinnudagurinn hefur verið erfiður

Farðu í apótek á leiðinni heim og kauptu Johnson & Johnson hitamæli, enga aðra tegund. Þegar þú ert komin/n heim lokaðu þá að þér, dragðu gluggatjöldin fyrir og taktu símann úr sambandi. Farðu í mjög þægileg föt, t.d. íþróttagalla, og leggstu upp í rúmið þitt. Opnaðu pakkann og settu mælinn varlega á náttborðið. Taktu bæklinginn sem fylgir og lestu hann. Þú munt sjá að neðst stendur með litlum stöfum : Allir endaþarmsmælar frá Johnson & Johnson fyrirtækinu eru persónulega prófaðir. Lokaðu nú augunum og segðu upphátt : " Eg gleðst af öllu hjarta yfir því að ég vinn ekki á prófanadeildinni hjá Johnson & Johnson fyrirtækinu." Endurtaktu þetta fjórum sinnum. Hafðu það svo gott og mundu að það er alltaf einhver sem er í verra starfi en þú.

Umferðarómenning

Ætíð er ég ek um götur borgarinnar, get ég ekki annað en dáðst að forheimsku samborgaranna þegar kemur að virðingu gagnvart umferðarlögunum okkar. Fólk virðist halda að umferðaljósin á gatnamótunum séu sem hver önnur jólaskreyting, í það minnsta bara einhver ljós á staur sem engu máli skipti. Nú heyrir það til undantekninga ef enginn fer yfir á rauðu ljósi. Og svo má nefna að fyrir einhverja óskiljanlega krafta eru uppi þær ranghugmyndir að vinstri akreinin sé fyrir hraðakstur, get með engu móti skilið hvernig fólk fær slíkar hugmyndir. Nú er það svo að það gilda hámarkshraðamörk á öllum götum og þegar fólk, þá sjaldan, ekur á löglegum hraða, þá get ég ekki séð tilganginn í því að vera með slíkan böðulgang að krefjast þess að einhver víki, einungis til þess að geta brotið lög. Mér finnst fáránlegt að fólk telji það að vinstri akreinin hafi þá yfirburði að hafa ótakmörkuð hraðamörk. Nú erum við að tala um akreinar í þéttbýli og eru þar af leiðandi jafnréttháar gangnvart hraðamörkum og sérstaklega þegar að og fráreinar eru beggja vegna, þá get ég með engu móti séð það að einhver ein akrein sé réthærri en einhver önnur. Ég get skilið það þegar einhver ekur langt undir hámarkshraða vinstra megin, séu einhverjir sem vilji geta, ef aðstæður leyfa, ekið á hámarkshraða vinstra megin til að koma sér og öðrum fljótar á milli staða, séu nægar ástæður til. Ég sé ekkert annað í stöðunni en að taka landsmenn í endurhæfingu í umferðarlögum, því þetta er að verða hættulegt, ég gæti skrifað þúsund síðna bók um það sem ég hef séð í umferðinni og það aðeins á nokkrum árum.

Tökum okkur til í andlitinu og förum að virða umferðarlögin og bera tillit til náungans, því allt það er við gerum öðrum, munu þeir og gera okkur sjálfum.


Perrar og fleira slæmt fólk

Þeir dúkka alltaf reglulega upp perrarnir, nóg er til af þeim virðist vera. Nú nýverið komst í umferð fjöldapóstur þar sem verið er að vara við einum slíkum. Og alltaf er þetta jafn ógeðfellt, hverju sinni. Þessi umræða vekur mig ætíð til umhugsunar um eftirlit á heimilum, sem oft er ábótavant. Í þessu tilfelli var það árvökul móðir sem kom auga á þetta og geri ég ráð fyrir að móðir sú sé að fylgjast með netnotkun heimafyrir af gefinni ástæðu, þ.e. að eitthvað hafi jafnvel komið fyrir áður sem undirstriki ástæðu þess að hafa virkt eftirlit.

Það er nefnilega staðreynd að sé það leyft á heimilum að vera með sítengingu inni á herbergjum, þá er afar erfitt að viðhafa virkt eftirlit svo einhverju nemi. Ég veit leiðinlega mörg tilfelli þess að börn og unglingar með nettenginu inni á sínum herbergjum, verða ánetjuð og eiga jafnvel erfitt með að losna úr þeim viðjum. Eina velvirka leiðin til að koma í veg fyrir eða í það minnsta lágmarka hættuna á netfíkn, er að hafa einungis eina nettengda tölvu á heimilinu og það í opnu rými sem auðveldar allt eftirlit og stjórn á því hversu mikil viðvera er á netinu.

Ég hef einu sinni komið fram opinberlega í sjónvarpsspjall vegna áreitis á netinu sem börn hafa orðið og verða því miður of oft fyrir. Var það gert með það fyrir augum að opna umræður um þessi efni og brjóta ísinn með frekari umræður opinberlega. Eitthvað var um að foreldrar tjáðu sig um málið, en betur má ef duga skal og verður sjálfsagt aldrei of oft hamrað á þessum öryggisatriðum í netnotkun barna og unglinga. Þetta er eitt af mínum hjartans málum og mun ég fara í það að koma mér á framfæri enn frekar með þessi atriði.

Setjum öryggið ofar öllu.

Jólahugleiðing 2006

Já, blessuð jólin nálgast eina ferðina enn. Og enn og aftur verður mér hugsað til hins upphaflega tilgangs þessarar hátíðarstundar. Hún á ekkert skylt við þá geðveiki sem gagntekur mannskepnuna á þessum tímamótum. Alla tíð hef hneykslast á framferði meðbræðra og systra minna nú þegar hátíð kaupmennsku og brjálæðis gengur í garð. Þessi tími dregur svo sannarlega mörkin milli þjóðfélagshópanna sem jú þjóðfélagið sjálft hefur skapað. Öll sú spenna sem byggst hefur upp frá Nóvemberbyrjun, brýst út með ýmsu móti nú þegar við ættum að vera að koma okkur vel fyrir og slaka á og njóta samvista við nákomna eða bara að slappa af við lestur góðra bóka. Nú eða jafnvel íhugun, sumir stunda innhverfa íhugun, sem getur verið ansi nærandi og slakandi.

Mér er stundum sorg í huga þegar mér verður hugsað til þeirra sem minna mega sín, geta ekki kringumstæðna sinna notið hátíðanna. Öll sú angist sem gagntekur þá sem hafa ekki ráð á að taka þátt í brjálæðinu á sama hátt og þeir sem eru ómeðvitað að ýta undir misskiptinguna.

Maður spyr sig, hvaða tilgangur er í því að gefa dýrar gjafir? Stórar gjafir? Þetta gerir fólk ruglað í ríminu og er alls engan veginn tilfallið til að sýna hinn eiginlega hug og boðskap þessarar hátíðar. Fyrir mér er hugtakið Jólagjafir einungis táknrænt, það er ekki spurningin um upphæðina eða flottheitin, heldur er það hugurinn sem liggur að baki hverri gjöf og tilgangnum með því að gefa. Við getum verið að tala um eitthvað heimatilbúið, það eru þær gjafir sem sýna hinn rétta hug, eitthvað sem kemur frá hjartanu, manneskjan hefur lagt sitt af mörkum til að búa eitthvað til með sínum höndum og hug. Bestu gjafirnar gætu þessvegna verið teiknuð mynd, litað af barnshug, hreinleikinn og algjörlega laust við fals og spillingu fullorðins lífsgæðatilbúnings.

Ef við aðeins gætum tekið okkur tíma til að íhuga þenna tilgang sem jólahátíðin stendur fyrir, stoppa aðeins og segja sem svo; Hvað er ég að gera rangt, hvað get ég gert til að bæta samskipti mín við umhverfið, hvernig get ég látið sjálfum mér og samferðafólki mínu líða betur? Þegar öllu er á botninn hvolft, þá gerist ekkert nema við sjálf tökum af skarið og breytum því sem við getum breytt, öðlumst skynsemi til að sjá muninn á því sem við gerum dagsdaglega, jafnt neikvæðu sem jákvæðu og innri styrk til að sætta okkur við þær aðstæður sem við fáum ekki breytt. Og gera svo eitthvað í málunum, ekkert breytist ef við sjálf aðhöfumst ekki neitt.

Höfum þetta jólahugleiðinguna í ár, skoðum okkur sjálf, hættum að skella skuldinni á aðra, þegar orsökin er kannski nær okkur en við grunar.

Hafið hamingjusama hátíð og hagsæld á nýju ári.
Lifið heil.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband