Jólahugleiðing 2006

Já, blessuð jólin nálgast eina ferðina enn. Og enn og aftur verður mér hugsað til hins upphaflega tilgangs þessarar hátíðarstundar. Hún á ekkert skylt við þá geðveiki sem gagntekur mannskepnuna á þessum tímamótum. Alla tíð hef hneykslast á framferði meðbræðra og systra minna nú þegar hátíð kaupmennsku og brjálæðis gengur í garð. Þessi tími dregur svo sannarlega mörkin milli þjóðfélagshópanna sem jú þjóðfélagið sjálft hefur skapað. Öll sú spenna sem byggst hefur upp frá Nóvemberbyrjun, brýst út með ýmsu móti nú þegar við ættum að vera að koma okkur vel fyrir og slaka á og njóta samvista við nákomna eða bara að slappa af við lestur góðra bóka. Nú eða jafnvel íhugun, sumir stunda innhverfa íhugun, sem getur verið ansi nærandi og slakandi.

Mér er stundum sorg í huga þegar mér verður hugsað til þeirra sem minna mega sín, geta ekki kringumstæðna sinna notið hátíðanna. Öll sú angist sem gagntekur þá sem hafa ekki ráð á að taka þátt í brjálæðinu á sama hátt og þeir sem eru ómeðvitað að ýta undir misskiptinguna.

Maður spyr sig, hvaða tilgangur er í því að gefa dýrar gjafir? Stórar gjafir? Þetta gerir fólk ruglað í ríminu og er alls engan veginn tilfallið til að sýna hinn eiginlega hug og boðskap þessarar hátíðar. Fyrir mér er hugtakið Jólagjafir einungis táknrænt, það er ekki spurningin um upphæðina eða flottheitin, heldur er það hugurinn sem liggur að baki hverri gjöf og tilgangnum með því að gefa. Við getum verið að tala um eitthvað heimatilbúið, það eru þær gjafir sem sýna hinn rétta hug, eitthvað sem kemur frá hjartanu, manneskjan hefur lagt sitt af mörkum til að búa eitthvað til með sínum höndum og hug. Bestu gjafirnar gætu þessvegna verið teiknuð mynd, litað af barnshug, hreinleikinn og algjörlega laust við fals og spillingu fullorðins lífsgæðatilbúnings.

Ef við aðeins gætum tekið okkur tíma til að íhuga þenna tilgang sem jólahátíðin stendur fyrir, stoppa aðeins og segja sem svo; Hvað er ég að gera rangt, hvað get ég gert til að bæta samskipti mín við umhverfið, hvernig get ég látið sjálfum mér og samferðafólki mínu líða betur? Þegar öllu er á botninn hvolft, þá gerist ekkert nema við sjálf tökum af skarið og breytum því sem við getum breytt, öðlumst skynsemi til að sjá muninn á því sem við gerum dagsdaglega, jafnt neikvæðu sem jákvæðu og innri styrk til að sætta okkur við þær aðstæður sem við fáum ekki breytt. Og gera svo eitthvað í málunum, ekkert breytist ef við sjálf aðhöfumst ekki neitt.

Höfum þetta jólahugleiðinguna í ár, skoðum okkur sjálf, hættum að skella skuldinni á aðra, þegar orsökin er kannski nær okkur en við grunar.

Hafið hamingjusama hátíð og hagsæld á nýju ári.
Lifið heil.

Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband