Jahjerna

Var að skoða mig um í blogheimum og mundi þá eftir þessari síðu minni og ákvað að kíkja aðeins á þetta dæmi aftur, sennilega bara fyrir kurteisissakir. Og ekki er að sökum að spyrja, ég sá það að einhver hafði skráð athugasemd við eina blogfærsluna mína, svona frekar í drullustílnum eins og afar mörgum er tamt. Get ekki alveg sett fingurinn á þessa áráttu fjölmargra að vera með svona skítlegar athugasemdir. Gagnrýni er eitt, siðlaust skítkast annað. 

Hins vegar snertir þetta mig ekkert, þar sem þeir sem hafa svonalagað frammi eru yfirleitt óskráðir (Ómerkir einstaklingar). Dreg í efa að fólk með snefil af sjálfsvirðingu fari að rita svoleiðis komment eins og viðkomandi. Þó eru nokkrir hérna, sem og á öllum vefsvæðum, sem eru innskráðir undir dulnefnum og gera engin skil á sjálfum sér, sem sagt ábyrgðarlausir einstaklingar, og þar með ómarktækir í beinu framhaldi.

Nú um þessar mundir er ég eingöngu að tjá hugrenningar mínar á minnsirkus.is, hvar fólk er í flestum tilvikum kurteist og nokkurnveginn siðprútt, þó ekki allir, það er fjandakornið ekki hægt að ætlast til þess að allir séu jafn fullkomnir og ég. Svo hef ég fjárfest í allviðamiklu myndaplássi á hinni alíslensku vefsíðu http://www.123.is Þar er gott að vera get ég sagt ykkur, kominn með 2 Gb af plássi og allir hamingjusamir. Hef verið þar inni í rúm tvö ár. Og ekki spillir að þar eru allir, ég endurtek, allir kurteisir og siðprúðir. Það er nefnilega staðreynd að með því að selja aðgang að vefsvæðum, þá veljast þangað inn einstaklingar sem hafa eitthvað vit í kollinum og eru ekki að offra sjálfsvirðingunni í einhvern tittlingaskít.

Nóg af rausi, nýliðnir páskar voru um margt ánægjulegir fyrir mig og mína nánustu. Þegar mest var á heimilinu, voru alls 4 ættliðir samankomnir og mikið gaman. Þótt ég sé ekki mannblendinn persónuleiki í grunninn, þá hef ég gaman að því þegar fjölskyldan nær saman og hefur gaman af.  Þessa áráttu hef ég erft frá móðurfjölskyldunni og hittast allamargir í þeirri kvísl allavega einu sinni á ári og trallar og tjúttar mikið. Tilgangurinn er eðlilega sá að treysta böndin og leyfa börnunum að kynnast sínum nánustu, til þess að ættartengslin haldist jafn góð og hægt er hverju sinni. 

Lifið heil 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband